Náms- og starfsráÐgjöf á vinnustaÐ
Dæmi: Ísland
Á Íslandi hafa náms- og starfsráðgjafar fræðslu- og símenntunarmiðstöðva samband við fyrirtæki (stjórnendur, mannauðsstjóra) til þess að skipuleggja fund með markhópnum (fólk með litla formlega menntun).
Ráðgjöf á vinnustað er liður í því að ná til eins margra í markhópnum og unnt er, hvar sem þeir eru staddir, til að veita þeim upplýsingar um menntun og sjóði og veita ráðgjöf um þátttöku í ævimenntun og færniþróun (hvetja og styðja markhópinn til færniþróunar). Til þess að árangur náist er mikilvægt að byggja ráðgjöfina á traustu sambandi og jafnræði.
Í þjónustunni felst:
-
Kynning á þjónustunni fyrir markhópinn, um ævimenntun, náms- og starfsráðgjöf alla ævi, færniþróun og mögulega styrki. Hóp-kynning fer fram á vinnustað og tekur 20–40 mínútur.
-
Viðtal - fyrsta viðtal á vinnustað, tekur 30–60 mínútur. Fleiri viðtöl á vinnustað eru veitt í samráði við vinnuveitanda og/eða fleiri einstaklingsviðtöl eru veitt á símenntunarmiðstöðvum.
-
Formleg og óformleg nálgun með aðstoð frá fulltrúum stéttarfélaga.
-
Tilboð um einstaklingsviðtöl, fyrsta viðtalið er skipulagt á vinnustað ef tækifæri er til (fleiri viðtöl annað hvort á vinnustað eða á símenntunarmiðstöð).
-
Þjónustan er veitt án endurgjalds og jafnræðis er gætt.
Ráðgjafar beita margs konar aðferðum við ráðgjöfina. Til dæmis eru lagðar fyrir áhugasviðskannanir, starfsgildakönnun, aðstoðað við gerð ferilskrár. Einnig eru nýtt ýmis konar tæki sem Norman E. Amundson hefur þróað og þýdd hafa verið og aðlöguð að íslenskum kringumstæðum. Má þar nefna að teikna lífsleið, (Life-line), að finna og skrá lista yfir færni, (Backpack, Suitcase), að finna og skrá lista yfir hindranir sem einstaklingur upplifir, annað hvort sem atvinnuleitandi, eða við ákveðnar kringumstæður á starfsferlinum (Roadmap). Viðtalsblöð eru notuð til að skrá upplýsingar vegna viðtalsins.
Reynslan af þessari aðferð er mjög góð, sérstaklega fyrir starfsmenn með litla eða enga formlega menntun. Ráðgjafinn og einstaklingurinn hittast í öruggu umhverfi á vinnustað, þar sem ráðþeginn finnur sig heima. Það getur reynst erfitt að fá leyfi stjórnenda til þess að veita þjónustuna á vinnustaðnum, þar sem þeir óttast að ráðgjafar hvetji starfsmenn til að þjálfa sig/mennta sig frá fyrirtækinu. Það hefur sýnt sig, að í raun er aðeins lítill hluti starfsmanna að hugsa um að yfirgefa fyrirtækið og í þeim sjaldgæfu tilvikum gæti það jafnvel reynst vera besta lausnin fyrir báða aðila.